Englendingur til Ólafsvíkur

Víkingur Ólafsvík hefur fengið liðsstyrk frá Englandi.
Víkingur Ólafsvík hefur fengið liðsstyrk frá Englandi. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Knattspyrnudeild Víkings Ólafsvíkur hefur samið við enska leikmanninn Billy Stedman um að spila með liðinu á komandi tímabili. 

Stedman, sem er 20 ára gamall, kemur til Víkings frá enska liðinu Coventry. Hann getur spilað á kantinum og framarlega á miðjunni.

Var hann á reynslu hjá Víkingum um mánaðamótin og þótti standa sig vel. Í kjölfarið var ákveðið að semja við hann.

Víkingur hafnaði í fjórða sæti 1. deildarinnar á síðustu leiktíð með 34 stig úr 22 leikjum. Síðan þá hefur Jón Páll Pálmason verið ráðinn þjálfari í stað Ejubs Purisevic, sem þjálfaði Ólafsvíkinga í tæp sautján ár. 

mbl.is