KSÍ mun fylgja tilmælum stjórnvalda

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, vonast til þess að kórónuveiran muni …
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, vonast til þess að kórónuveiran muni ekki setja landsliðsverkefni úr skorðum. mbl.is/Hari

„Við fylgjumst auðvitað bara grannt með aðstæðum og framvindu mála,“ sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, í samtali við mbl.is í dag þegar að hann var spurður út í kórónuveirufaraldinn sem nú geisar meðal annars á Ítalíu og hvaða áhrif hann hefur á íslenska knattspyrnumenn sem þar spila.

Íslenska karlalandsliðið mætir Rúmeníu í umspilsleik um laust sæti á EM 2020 á Laugardalsvelli 26. mars. Birkir Bjarnason og Emil Hallfreðsson hafa báðir verið lykilmenn í landsliðinu undanfarin ár en þeir spila báðir á Ítalíu. Þar hefur mörgum knattspyrnuleikjum verið frestað vegna kórónuveirunnar en alls hafa 400 manns smitast í landinu og þar af eru tólf látnir.

Fyrr í dag greindi KSÍ frá því að Berglind Björg Þorvaldsdóttir gæti ekki ferðast með kvennalandsliðinu á alþjóðlegt mót á Spáni í byrjun mars þar sem hún fær ekki ferðaleyfi vegna kórónuveirunnar en hún spilar með AC Milan á Spáni.

„Við fylgjumst vel með því sem er að gerast á meginlandi Evrópu og svo auðvitað bara því sem er að gerast hér í Íslandi í tengslum við veiruna. Við munum taka tillit til tilmæla og fyrirmæla stjórnvalda þegar nær dregur umspilsleikjunum og auðvitað vonumst við til þess að málin þróist í rétta átt. Að sjálfsögðu vonumst við til þess að allir leikmenn Íslands verði tilbúnir fyrir þennan tiltæka leik og ég á ekki von á neinu öðru.“

„Eftir því sem maður best veit þá eru aðstæður að breytast núna með hverri vikunni sem líður. Við höldum áfram að fylgjast vel með og munum gera allar þær ráðstafanir sem við þurfum til þess að bæði spila þá leiki sem eiga að fara fram og eins nota alla þá leikmenn sem okkur standa til boða,“ sagði Guðni Bergsson í samtali við mbl.is.

mbl.is