Ólafsvíkingar fá markvörð að láni

Ólafsvíkingar hafa fengið nýjan mann í markið.
Ólafsvíkingar hafa fengið nýjan mann í markið. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Brynjar Atli Bragason knattspyrnumarkvörður frá Njarðvík er kominn til 1. deildarliðs Víkings í Ólafsvík sem lánsmaður frá Breiðabliki fyrir komandi keppnistímabil.

Brynjar, sem er 19 ára gamall, vakti talsverða athygli fyrir frammistöðu sína með Njarðvíkingum í 1. deildinni á síðasta tímabili en árið 2018 lék hann í marki Víðis í Garði í 2. deildinni, sem lánsmaður. Hann lék fyrst í marki Njarðvíkinga 16 ára gamall sumarið 2016 og á að baki sex leiki með yngri landsliðum Íslands.

Brynjar gekk til liðs við Breiðablik í vetur og er samningsbundinn þar. Í Ólafsvík leysir hann af hólmi Króatann Franko Lalic sem gekk til liðs við Þrótt í Reykjavík fyrir skömmu.

mbl.is