Þjálfari afþakkar helming launanna

Mikael Nikulásson.
Mikael Nikulásson. Ljósmynd/@kristjanoli

Mikael Nikulásson, þjálfari karlaliðs Njarðvíkur í knattspyrnu, hefur ákveðið að afþakka helming þeirra launa sem hann á rétt á samkvæmt ráðningarsamningi hjá félaginu í mars og væntanlega apríl. 

Njarðvík leikur í 2. deild Íslandsmótsins eða þriðju efstu deild en liðið féll úr þeirri næstneðstu síðasta haust og tók Mikael þá við þjálfun liðsins. 

Mikael afþakkar helming launa sinna vegna kórónuveirunnar sem setur svip sinn á íþróttalífið enda samkomubann í landinu og alls óvíst hvenær Íslandsmótið í knattspyrnu hefst. 

Kom þetta fram hjá Mikael í þættinum Sportið á Stöð2 í dag. 

mbl.is