Leikmaður Vals með kórónuveiruna

Birkir Heimisson í leik með Þór áður en hann fór …
Birkir Heimisson í leik með Þór áður en hann fór til Hollands. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Birkir Heimisson, knattspyrnumaður úr Val, hefur staðfest að hann sé með kórónuveiruna en það kemur fram í viðtali við hann á fótbolti.net.

Þar skýrir Birkir frá því að hann hafi verið rúmliggjandi síðustu viku en sé orðinn einkennalaus og líði ágætlega. Hann verði í einangrun í fjórtán daga.

Birkir er fyrsti leikmaðurinn í Pepsi Max-deild karla sem skýrir frá því að hann hafi fengið veiruna en áður hefur komið fram að Ólafur Stígsson, annar þjálfara Fylkis, hafi greinst með hana.

Birkir, sem er nýorðinn tvítugur, kom til liðs við Val í vetur frá Heerenveen í Hollandi en þar lék hann með unglingaliðum í þrjú ár. Hann er annars uppalinn hjá Þór á Akureyri og lék með meistaraflokki félagsins árið 2016 áður en hann fór til Hollands. Birkir á að baki 24 leiki með yngri landsliðum Íslands.

mbl.is