Vill úrslitakeppni í íslenska fótboltann

Óli Stefán Flóventsson.
Óli Stefán Flóventsson. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Óli Stefán Flóventsson, þjálfari karlaliðs KA í knattspyrnu, ræddi við Valtý Björn Valtýsson í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun í dag. Óli er á leiðinni inn í sitt annað tímabil sem þjálfari KA, en liðið endaði í fimmta sæti Pepsi Max-deildarinnar á síðustu leiktíð. Óli er óviss um hvort einhverjir leikmenn bætist inn í hópinn á næstu vikum. 

„Það er erfitt að segja. Það hafa allir verið að klippa af sínum samningum og verið að hjálpa til. Auðvitað er það viðkvæmt efni að fara svo að ráðast í einhverjar styrkingar. Við skoðum hins vegar stöðuna ef eitthvað kemur upp. Það þarf að standa sig vel í þeim málum núna,“ sagði Óli. Hann segir aukið hlé vegna kórónuveirunnar hafa gert meiddum leikmönnum gott. 

„Það er samnefnari yfir öll liðin, bæði hér og annars staðar að þetta ástand gert það að verkum að við höfum hlúð að þeim sem voru meiddir. Ásgeir Sigurgeirs hefur t.a.m. fengið tíma til að gera sig kláran. Álaginu eru stýrt þannig að líkurnar á meiðslum eru minni en venjulega. Leikmannahópar ættu því að vera í eins góðu ásigkomulagi og hugsast getur.“

Mikið hefur verið rætt og ritað um lengingu tímabilsins hér á landi. Einhverjir vilja fjölga liðum í efstu deild, en Óli er með aðrar hugmyndir. 

„Við eigum að halda okkur við þessu tólf lið og spila svo úrslitakeppni. Þegar deildin er búin ættum við að skipta deildinni í efri úrslitakeppni og svo neðri úrslitakeppni og þá hefst annað mót. Þá fengjum við fimm auka leiki með miklu vægi og við fengjum ekkert nema toppslagi og svo botnslagi. Ég er hissa að hafa ekki heyrt þetta oftar,“ sagði Óli Stefán.

mbl.is