Vongóð um að spila í sumar

Alexandra Jóhannsdóttir í baráttunni við Formigu í leik Breiðabliks og …
Alexandra Jóhannsdóttir í baráttunni við Formigu í leik Breiðabliks og PSG í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alexandra Jóhannsdóttir, landsliðskona Íslands í knattspyrnu og leikmaður Breiðabliks í úrvalsdeildinni, þurfti að draga sig úr íslenska hópnum sem tók þátt á Pinatar Cup, alþjóðlegu móti á Spáni, í byrjun mars vegna meiðsla.

Miðjumaðurinn öflugi, sem er tvítug, hefur verið að glíma við meiðsli aftan í læri í vetur en hún er vongóð um vera komin á fulla ferð með Breiðabliki þegar liðið hefur leik gegn FH í Pepsi Max-deildinni 13. júní á Kópavogsvelli.

„Ég fékk þær fréttir á dögunum að þetta væri eitthvað sem ég þyrfti að vinna í í allt sumar,“ sagði Alexandra í samtali við mbl.is. „Ég á engu að síður að geta spilað og æft, svo framarlega sem ég versna ekki. Ég sé þess vegna fram á að geta spilað alla leiki, svo framarlega sem ég er valin í liðið, og að geta tekið þátt í öllum æfingum í sumar.“

Þrátt fyrir ungan aldur á Alexandra að baki  5 A-landsleiki fyrir Ísland þar sem hún hefur skorað eitt mark. Þá hefur hún spilað 52 leiki í efstu deild með Haukum og Breiðabliki þar sem hún hefur skorað 18 mörk.

„Eins og staðan er í dag er ég bara æfa eins og aðrir leikmenn liðsins. Ég þarf að hita aðeins betur upp auðvitað en annars tek ég þátt í öllum æfingum með liðinu. Að sama skapi er orðið ansi langt síðan maður spilaði fótbolta þannig að ég veit ekki nákvæmlega hvernig spilformið hjá mér er og hvernig maður verður þegar maður byrjar að spila en það kemur bara í ljós þegar nær dregur,“ bætti miðjumaðurinn við.

Alexandra Jóhannsdóttir á að baki 52 leiki í efstu deild …
Alexandra Jóhannsdóttir á að baki 52 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað 18 mörk. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is