Gagnrýninn á ákvarðanir landsliðsþjálfarans í kringum HM

Kári Árnason á að baki 83 landsleiki fyrir Ísland.
Kári Árnason á að baki 83 landsleiki fyrir Ísland. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kári Árnason, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu og leikmaður Víkings í úrvalsdeild karla, var gestur Jóhanns Skúla Jónssonar í hlaðvarpsþættinum Draumaliðið á dögunum. Kári, sem er á meðal reyndustu landsliðsmanna Íslands í dag, er orðinn 37 ára gamall en hann var lykilmaður í hjarta varnarinnar á bæði EM í Frakklandi 2016 og HM í Rússlandi 2018.

Kári á að baki 83 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað sex mörk en hann ræddi tímann á HM í Rússlandi í hlaðvarpsþættinum Draumaliðið og talaði meðal annars um að liðshótel íslenska liðsins í Gelendshik. „Manni leið ekki eins og maður væri á stórmóti. Hótelið var ekki næs en það var bara eina hótelið sem var í boði. Rússarnir bjóða upp á ákveðinn hótel og svo er það bara hver er fyrstur að velja,“ sagði Kári.

„Æfingasvæðið var tipp topp og ekkert út á það að setja en hótelið var ekki heillandi og við vorum bara þarna með einhverjum túristum. Á EM vorum við einir með lítið hótel sem var algjörlega geggjað. Stemningin var frábær og það var allt til alls þarna en á HM var þetta bara eins og hvert annað landsliðsverkefni.“

Íslenska landsliðið náði undraverðum árangri á EM í Frakklandi þar …
Íslenska landsliðið náði undraverðum árangri á EM í Frakklandi þar sem liðið fór alla leið í átta liða úrslit keppninnar. Skapti Hallgrímsson

Vanmat gegn Nígeríu?

Í öðrum leik sínum á HM mætti Ísland Nígeríu í D-riðli keppninnar í Volgograd. Ísland gerði 1:1-jafntefli við Argentínu í fyrsta leik þar sem spilað var leikkerfið 4-5-1 en gegn Nígeríu var ákveðið að spila 4-4-2 og gagnrýnir Kári þá ákvörðun þjálfarans, Heimis Hallgrímssonar.

„Það eru ákveðnir hlutir, taktískt séð, sem maður pirrar sig á svona eftir á að hyggja sem knattspyrnumaður. Gylfi og Aron voru báðir tæpir og búnir að vera meiddir í aðdraganda mótsins. Þeir voru ekki í sínu besta formi og við spiluðum með fjögurra manna miðju gegn gríðarlega sterku liði Nígeríu sem var í frábæru líkamlegu standi. Ég veit ekki hvort þetta var vanmat eða ekki en áttum við bara að keyra yfir Nígeríu?

Það gekk vel að spila með fimm manna miðju gegn Argentínu en svo breytum við um taktík gegn andstæðingi sem var í hörkuformi. Fyrri hálfleikurinn gekk vel og við sköpuðum ágætistækifæri. Í seinni hálfleik vorum við bara sprungnir því það tekur mikið á að spila svona tveir á móti þremur á miðsvæðinu. Það opnast allt, þeir skora, og leikurinn fór eins og hann fór,“ en leiknum lauk með 2:0-sigri Nígeríu.

Heimir Hallgrímsson og Albert Guðmundsson á æfingu Íslands í Rússlandi …
Heimir Hallgrímsson og Albert Guðmundsson á æfingu Íslands í Rússlandi 2018. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kjúklingur í varaliði PSV

Þá var Albert Guðmundsson valinn nokkuð óvænt í landsliðshópinn en hann lék þá með PSV í Hollandi. Kári hefði viljað sjá Kolbein Sigþórsson í hópnum, þrátt fyrir að Kolbeinn hefði nánst ekki spilað alvörufótbolta síðan á EM 2016.

Albert fékk sínar fyrstu mínútur með landsliðinu í lokaleiknum gegn Króatíu þar sem Ísland þurfti stig til að fara áfram en hann kom inn á sem varamaður á 85. mínútu.

„Svo hefði maður líka viljað sjá Kolla þarna, til dæmis á lokamínútunum gegn Króatíu. Þótt það hefði ekki verið nema bara síðustu fimm mínúturnar eða eitthvað. Við vorum með Albert Guðmunds þarna sem var bara kjúklingur. Hann var búinn að vera spila með varaliði PSV á þessum tíma og var bara engan veginn klár í þetta.

Fyrstu alvöruleikirnir sem hann spilar eru á HM sem er svakalegt. Sama hversu góður hann á eftir að vera er Kolli alltaf maðurinn í þetta verkefni, að berjast við tveggja metra háa miðverði. Sama þótt hann hefði bara spilað fimm mínútur á mótinu hefði ég alltaf tekið Kolla með,“ bætti Kári við en leiknum lauk með 2:1-sigri Króatíu og Ísland féll úr leik.

Hægt er að hlusta á þáttinn með því að smella hér.

mbl.is