Framlengdu samninginn við íslenska markvörðinn

Frederik Schram fagnar Hannesi Þór Halldórssyni eftir jafntefli Íslands og …
Frederik Schram fagnar Hannesi Þór Halldórssyni eftir jafntefli Íslands og Argentínu á HM í Moskvu sumarið 2018. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frederik Schram, einn af landsliðsmarkvörðum Íslands í knattspyrnu undanfarin ár, hefur framlengt samning sinn við danska úrvalsdeildarfélagið Lyngby til loka yfirstandandi tímabils.

Frederik og sjö aðrir leikmenn Lyngby voru með samninga sem áttu að renna út 30. júní. Þar sem keppni í dönsku úrvalsdeildinni, sem hefst á ný 29. maí, á að standa fram eftir júlímánuði var öllum leikmönnum deildarinnar sem voru að ljúka sínum samningum boðin eins mánaðar framlenging.

Allir þeir átta hjá Lyngby sem eru í þeirri stöðu samþykktu framlenginguna. Lyngby mætir FC Köbenhavn 1. júní í fyrsta leiknum eftir hléið. 

Lyngby er í áttunda sæti af fjórtán liðum þegar tvær umferðir eru eftir af hefðbundinni deildakeppni og á nær enga möguleika á að komast í hóp sex efstu liðanna, sem síðan leika áfram tíu umferðir innbyrðis. Við Lyngby blasir því að fara í umspil um áframhaldandi sæti í deildinni.

mbl.is