Fer ekki að gera fimm skiptingar í hverjum leik

Rúnar Kristinsson.
Rúnar Kristinsson. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Rúnar Kristinsson, þjálfari Íslandsmeistara KR í knattspyrnu, ræddi við Valtý Björn Valtýsson í hlaðvarpinu Mín skoðun í dag. Íslandsmótið hefst 13. júní með leik Vals og KR á Hlíðarenda. Rúnar segir alla sína leikmenn vera í góðu standi og klára í slaginn. 

„Við erum fínir. Það eru allir okkar leikmenn heilir, enda höfum við verið að æfa án snertinga, en kannski breytist það þegar við bætum snertingum í æfingarnar. Þá verður þetta meira stutt spil og því meira um árekstra og þannig. Þá verða líka styttri sprettir og aðeins meiri átök. Þegar þú æfir einn eru átökin allt öðruvísi. Þú ferð ekki í óvæntan sprett eða stoppar óvænt og snýrð,“ sagði Rúnar. 

Verða fimm skiptingar leyfilegar í deildinni í sumar, eins og stærstu deildum Evrópu. Er það gert til að minnka meiðslaáhættu leikmanna, sem hafa lítið spilað á síðustu mánuðum vegna kórónuveirunnar. Rúnar er sáttur við regluna, þótt hann viðurkenni að hann muni ekki alltaf nýta sér hana. 

„Mér finnst það mjög góð regla. Ég er hlynntur því að fjölga skiptingunum. Ef þú horfir á stóru liðin í Evrópu og víðar þá eru leikmannahóparnir orðnir mjög stórir og þetta gefur tækifæri á að leyfa fleirum að spila. Það er áskorun fyrir þjálfara líka; að annaðhvort nýta sér þetta eða nýta sér þetta ekki. Ég fer kannski ekki að gera fimm skiptingar í hverjum leik. Þegar þú ert að vinna 1:0 eða 2:0 þarftu ekki að breyta miklu.“

mbl.is