ÍR samdi við 22 leikmenn á einum degi

Leikmennirnir 22 sem sömdu við ÍR.
Leikmennirnir 22 sem sömdu við ÍR. Ljósmynd/ÍR fótbolti

Knattspyrnudeild ÍR hefur haft í nógu að snúast síðustu daga því deildin samdi við 22 leikmenn kvennaliðs félagsins síðastliðinn mánudag. Þá var ráðning Ásgeirs Þórs Eiríkssonar sem aðstoðarþjálfara liðsins sömuleiðis staðfest. 

Það er mikið ánægjuefni fyrir félagið að nú á vordögum hafa stelpurnar okkar stigið ákveðið skref upp á við í þeirri baráttu að búa til öflugt meistaraflokkslið í kvennafótbolta í Breiðholtinu. Það er verðugt verkefni og áfangi eins og sá sem var staðfestur með þessum undirskriftum vekur okkur von og fyllir okkur baráttuanda,“ segir í yfirlýsingu félagsins á Facebook. 

Síðasta sumar var erfitt hjá ÍR því liðið fékk aðeins fjögur stig í 18 leikjum í 1. deildinni og leikur því í 2. deild í sumar. Fyrsti leikur liðsins er á heimavelli gegn Sindra 21. júní. 

mbl.is