Tíu þúsund stuðningsmenn „mættu“ á völlinn

Úr leik AGF og Randers á fimmtudaginn. Stuðningsmenn sjást á …
Úr leik AGF og Randers á fimmtudaginn. Stuðningsmenn sjást á bíótjöldum í bakgrunni. Ljósmynd/AGF

Danska knattspyrnufélagið AGF, sem Íslendingurinn Jón Dagur Þorsteinsson leikur með, fór nýstárlega leið við að leyfa stuðningsmönnum sínum að fylgjast með og styðja sitt lið þrátt fyrir samkomubann vegna kórónuveirunnar.

Danska úrvalsdeildin hóf göngu sína á ný í vikunni en allir leikir þurfa að fara fram fyrir luktum dyrum vegna veirunnar sem herjað hefur á heimsbyggðina undanfarna mánuði. Mótahald víða um Evrópu hefur verið að hefjast aftur með sama sniði og þurfa knattspyrnumenn að láta sér nægja að spila fyrir galtómum völlum. Hefur bragur slíkra leikja gjarnan minnt á æfingaleiki og ljóst að íþróttin er ekki söm án þeirrar stemningar sem þúsundir áhorfenda geta skapað.

Forráðamenn AGF dóu þó ekki ráðalausir þegar liðið tók á móti Randers í fyrradag og gátu leikmenn spilað leikinn fyrir um tíu þúsund áhorfendum og ekki bara það, heldur gátu þeir heyrt hvatningaróp þeirra líka.

Í stað þess að sitja með hefðbundnum hætti í stúkum Ceres Park skráðu um tíu þúsund stuðningsmenn sig inn með fjarfundabúnaðinum Zoom og var myndum af þeim varpað upp í stúku með skjávörpum og köll þeirra spiluð í hljóðkerfi leikvangsins. Úr varð ekki beinlínis hefðbundinn fótboltaleikur, en áhugaverður var hann og mátti sjá að Danirnir höfðu gaman af uppátækinu. Meira að segja fengu stuðningsmenn gestaliðsins sitt eigið horn.

Jón Dagur var farinn af velli seint í uppbótartíma þegar liðsfélagi hans Pat­rick Morten­sen jafnaði metin og tryggði heimamönnum dýrmætt stig í blálokin. Í kringum völlinn mátti sjá glaðværa stuðningsmenn liðsins hoppandi og hrópandi af fögnuð, ýmist í stofunni heima eða inni í eldhúsi.

mbl.is