Allt vitlaust á Villa Park - Egyptarnir hetjur Aston Villa

Það varð hreinlega allt vitlaust af fögnuði þegar flautað var …
Það varð hreinlega allt vitlaust af fögnuði þegar flautað var til leiksloka á Villa Park í kvöld. AFP

Aston Villa er komið í úrslit enska deildabikarsins í knattspyrnu eftir dramatískan sigur á Leicester, 2:1, í seinni undanúrslitaleik liðanna á Villa Park í Birmingham í kvöld.

Fyrri leikurinn endaði 1:1 og jafntefli í þeim síðari hefði þýtt að farið hefði verið beint í vítaspyrnukeppni. Allt stefndi í hana en Matt Targett kom Villa yfir á 12. mínútu eftir undirbúning Tony Grealish og Kelechi Ihenanacho jafnaði fyrir Leicester á 72. mínútu eftir sendingu frá Harvey Barnes, 1:1.

Þegar komið var fram í uppbótartímann sendi egypski kantmaðurinn Ahmed El Mohamady boltann fyrir mark Leicester á landa sinn Trezeguet sem skorað sigurmarkið við gríðarlegan fögnuð á Villa Park.

Trezeguet fagnar sigurmarki sínu fyrir Aston Villa.
Trezeguet fagnar sigurmarki sínu fyrir Aston Villa. AFP

Áhorfendur þustu inn á völlinn þegar flautað var af og leikmenn Aston Villa voru lengi að komast í gegnum mannþröngina og inn í búningsklefana.

Aston Villa mætir annaðhvort Manchester City eða Manchester United í úrslitaleiknum en City er yfir 3:1 í því einvígi og er á heimavelli í seinni leiknum annað kvöld.

mbl.is