Köstuðu logandi kyndlum að húsi framkvæmdastjóra United

Ed Woodward er framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Manchester United og stýrir …
Ed Woodward er framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Manchester United og stýrir leikmannakaupum félagsins. AFP

Hópur stuðningsmanna enska knattspyrnuliðsins Manchester United fór í kvöld að húsi framkvæmdastjóra félagsins, Ed Woodwards.

Myndskeið sem birtist á samfélagsmiðlum sýndi þá kasta logandi kyndlum yfir garðshliðið og í átt að húsinu. Talið er að um tuttugu manna hópur hafi verið að verki.

Manchester United sendi frá sér fréttatilkynningu fyrir stundu:

„Knattspyrnufélaginu Manchester United var í kvöld gert viðvart um atvik sem átti sér stað fyrir utan heimili starfsmanns okkar.

Við vitum að knattspyrnuheimurinn mun leggja okkur lið þar sem við vinnum að því með lögregluyfirvöldum í Manchester að finna sökudólgana í þessari ljótu árás.

Hver sá sem verður fundinn sekur um glæpsamlegt athæfi eða að hafa verið í óleyfi á þessari landareign verður settur í lífstíðarbann hjá félaginu og getur átt von á ákæru.

Það er eitt að stuðningsmenn láti í ljós skoðun sína, það að vinna skemmdarverk og stofna mannslífum í hættu er allt annað. Ekkert afsakar þessa framkomu.“

Sky Sports segir að Woodward, eiginkona hans og tvær dætur hafi ekki verið heima þegar atvikið átti sér stað.

BBC segir að hópurinn hafi hrópað: „Hann skal deyja,“ en atvikið er tengt óánægju margra stuðningsmanna félagsins með leikmannakaup, sem Woodward hefur yfirumsjón með.

Ole Gunnar Solskjær og aðstoðarmenn hans hafa verið gagnrýndir fyrir …
Ole Gunnar Solskjær og aðstoðarmenn hans hafa verið gagnrýndir fyrir slæmt gengi Manchester United í vetur. AFP
mbl.is