Gomes gæti spilað gegn Arsenal - samkeppni Gylfa harðnar

Heung-min Son brýtur á Andre Gomes í leik Everton og …
Heung-min Son brýtur á Andre Gomes í leik Everton og Tottenham. Nokkrum sekúndum síðar rakst Gomes á Sergio Aurier og ökklabrotnaði illa. AFP

Portúgalski knattspyrnumaðurinn André Gomes gæti spilað með Everton á ný þegar liðið mætir Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn kemur.

Gomes meiddist illa í leik gegn Tottenham 3. nóvember en hann ökklabrotnaði og talið var að hann yrði frá keppni út tímabilið. Endurhæfingin hefur hins vegar gengið vonum framar og Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton, segir á vef félagsins að Gomes gæti komið við sögu gegn Arsenal, í kjölfar þess að hann lék 60 mínútur í æfingaleik á dögunum.

„Hann stóð sig vel, lék eðlilega og án óþæginda, og er að mínu mati tilbúinn fyrir sunnudaginn. Ég á eftir að ræða við hann hvort hann sé tilbúinn til að spila en ég tel að hann sé það,“ sagði Ancelotti.

Endurkoma Gomes getur haft talsverð áhrif á spiltíma Gylfa Þórs Sigurðssonar því Ancelotti hefur látið Everton spila 4-4-2 með Gylfa sem annan tveggja miðjumanna. Nú eru þeir fimm sem berjast um tvær stöður, Gylfi, Gomes, Morgan Schneiderlin, Fabian Delph og Tom Davies.

mbl.is