United í fimmta sætið eftir öruggan sigur

Anthony Martial og Mason Greenwood voru báðir á skotskónum í …
Anthony Martial og Mason Greenwood voru báðir á skotskónum í liði United í dag. AFP

Manchester United er komið í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir öruggan sigur gegn Watford á Old Trafford í Manchester í dag. Leiknum lauk með 3:0-sigri United en United leiddi með einu marki gegn engu í hálfleik.

Bruno Fernandes kom United yfir á 42. mínútu með marki úr vítaspyrnu sem hann hafði fiskað sjálfur en þetta var hans fyrsta mark fyrir félagið. Daniel James sendi Fernandes í gegn og Ben Foster, markmaður Watford, kom út á móti Portúgalanum og tók hann niður innan teigs.

Watford-menn héldu að þeir hefðu jafnað metin í upphafi síðari hálfleiks þegar Troy Deeney kom boltanum í netið eftir hornspyrnu en það mark var dæmt af þar sem Craig Dawson, varnarmaður Watford, þótti handleika knöttinn í aðdraganda marksins og það fékk því ekki að standa.

United refsaði grimmilega því aðeins sex mínútum síðar tvöfaldaði Anthony Martial forystu United með laglegri vippu. Mason Greenwood innsiglaði svo sigur United með marki á 75. mínútu þegar hann þrumaði boltanum í slána og inn úr teignum eftir hraða sókn United.

Manchester United er nú með 41 stig í fimmta sæti deildarinnar og hefur eins stigs forskot á bæði Tottenham og Sheffield United sem eru í sjötta og sjöunda sætinu. Watford er hins vegar í vondum málum í nítjánda og næstneðsta sætinu með 24 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Man. Utd 3:0 Watford opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is