Íslendingurinn virkaði þreyttur

Gylfi Þór Sigurðsson átti mjög góðan fyrri hálfleik en það …
Gylfi Þór Sigurðsson átti mjög góðan fyrri hálfleik en það dró heldur mikið af honum í seinni hálfleik. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Everton sem þurfti að sætta sig við 3:2-tap gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Emirates-vellinum í London í gær. Gylfi lék allan leikinn á miðjunni og átt þátt í báðum mörkum Everton í leiknum en það dugði hins vegar ekki til og Pierre-Emerick Aubameyang tryggði Arsenal sigur með sigurmarki í upphafi seinni hálfleiks.

Staðarblaðið í Liverpool, Liverpool Echo, var nokkuð sátt við frammistöðu Gylfa í leiknum og gaf honum sex í einkunn fyrir frammistöðuna. „Tók frábæra aukaspyrnu strax á fyrstu mínútum leiksins sem skilaði fallegu marki. Þá lék hann einnig stórt hlutverk í uppbyggingunni á öðru marki Everton,“ segir í umfjöllun Liverpool Echo.

„Eftir mjög góðan fyrri hálfleik dró mikið af íslenska landsliðsmanninum í síðari hálfleik og hann virkaði hreinlega þreyttur. Það ætti hins vegar ekki að draga hann of mikið niður fyrir seinni hálfleikinn því hann var stórgóður í þeim fyrri,“ segir enn fremur í umfjöllun Liverpool Echo um íslenska miðjumanninn.

mbl.is