Á ekki skilið annað tækifæri

Nioclas Pépé.
Nioclas Pépé. AFP

Nicolas Pépé, sókn­ar­maður enska knatt­spyrnu­fé­lags­ins Arsenal, á ekki skilið annað tækifæri í liðinu í bráð, jafnvel þótt hann sé dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins.

Pépé kom til Arsenal frá Lille í sumar en enska félagið borgaði 72 milljónir fyrir hann. Fílabeinsstrendingurinn hefur hins vegar átt nokkuð erfitt uppdráttar og aðeins skorað sex mörk í 29 leikjum á tímabilinu. Gamla Arsenal-kempan Charlie Nicholas telur að hann eigi ekki skilið að vera í liðinu þegar Arsenal mætir Olympiacos í Evrópudeildinni á fimmtudaginn.

„Þetta er ekki öruggur sigur fyrir Arsenal og Mikel Arteta veit það,“ sagði Nicholas á Sky Sports en Arsenal vann fyrri leikinn í Grikklandi með einu marki gegn engu. „Alexandre Lacazette kemur inn í liðið og þú verður að spila Pierre-Emerick Aubameyang þar sem hann skorar mörk. Mun Nicolas Pépé fá annan séns? Örugglega. Á hann það skilið? Sennilega ekki. Ég myndi frekar spila Gabriel Martinelli.“

mbl.is