United þarf að selja til að kaupa

Paul Pogba og Jesse Lingard gætu báðir verið á förum …
Paul Pogba og Jesse Lingard gætu báðir verið á förum frá Manchester United næsta sumar. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United þarf að selja leikmenn í sumar ætli félagið sér að styrkja hópinn en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Ole Gunnar Solskjær vill fá inn fjóra til fimm nýja leikmenn en talið er líklegt að Norðmaðurinn muni eyða í kringum 200 milljónum punda næsta sumar.

Til þess að United geti hins vegar eytt svona háum fjárhæðum verður félagið að selja leikmenn, meðal annars vegna þess að félagið leikur ekki í Meistaradeildinni og hefur þannig misst af háum fjárhæðum, og eins til þess að brjóta ekki í bága við fjármálareglur UEFA, FFP, líkt og Manchester City gerði sem varð til þess að félagið var úrskurðað í tveggja ára bann í Meistaradeildinni.

Leikmenn sem gætu yfirgefið United næsta sumar eru Jesse Lingard og Andreas Pereira en félagið gæti notað upphæðina sem fæst fyrir þessa tvo leikmenn til þess að kaupa Jack Grealish, fyrirliða Aston Villa. Þá gætu Paul Pogba, David de Gea, Marcos Rojo og Alexis Sánchez allir yfirgefið félagið.

United vill fá í kringum 100 milljónir punda fyrir Pogba sem er eftirsóttur bæði á Ítalíu, Spáni og í Frakklandi. Þá er United sagt opið fyrir því að selja De Gea sem hefur ekki átt sitt besta tímabil á Englandi. Dean Henderson mun snúa til baka úr láni frá Sheffield United næsta sumar og gæti hann fyllt skarð de Gea hjá félaginu sem markmaður númer eitt.

mbl.is