Verður Liverpool svipt Englandsmeistaratitlinum?

Leikmenn Liverpool eru langefstir í ensku úrvalsdeildinni.
Leikmenn Liverpool eru langefstir í ensku úrvalsdeildinni. AFP

Liverpool verður ekki endilega krýnt sem nýr Englandsmeistari, fari svo að restinni af tímabilinu í úrvalsdeildinni verði aflýst. Þá myndu neðstu þrjú liðin ekki heldur endilega falla úr deildinni.

Hröð útbreiðsla kórónuveirunnar hefur orðið til þess að breska ríkisstjórnin skoðar nú hvort þurfi að aflýsa öllum íþróttaviðburðum í Bretlandi í tvo mánuði eða lengur. Það myndi sennilega þýða að margir leikir í úrvalsdeildinni yrðu einfaldlega ekki leiknir en það er The Telegraph sem segir frá þessu.

Fari svo að úrvalsdeildartímabilið verði ekki klárað þyrfti enska knattspyrnusambandið að ákveða hvort fyrri úrslit vetrarins myndu standa, eða hvort allt tímabilið yrði úrskurðað dautt og ómerkt. Fyrir slíku er fordæmi.

Tímabilið 1939-1940 var afboðað eftir þrjár umferðir vegna upphafs seinni heimsstyrjaldarinnar. Blackpool var á toppi deildarinnar, einu stigi fyrir ofan Sheffield United, en var þó ekki krýnt meistari. Staðan í ár er þó auðvitað töluvert frábrugðin.

Liverpool nálægt fyrsta titlinum í 30 ár

Liverpool er nú þegar með 22 stiga forystu á toppnum og þarf aðeins fjóra sigurleiki í viðbót til að hreppa fyrsta Englandsmeistaratitil félagsins í 30 ár. Það myndi því vera gríðarlega umdeilt að veita þeim ekki verðlaunin, sérstaklega ef liðið verður búið að tryggja sér þau þegar keppni yrði aflýst.

Á hinn bóginn væri ekki síður umdeilt að fella neðstu þrjú liðin, ef þau ættu enn möguleika á að bjarga sæti sínu þegar deildarkeppninni yrði frestað. Gríðarlegir fjármunir eru í húfi fyrir þau félög sem falla úr efstu deild, sem og þau sem koma upp úr B-deildinni í staðinn.

Yrði deildarkeppnin í ár dæmd ómerk þyrfti sömuleiðis að finna út hvaða lið fengu að taka þátt í Evrópukeppnum á næsta ári. Fari svo að aflýsa þurfi hluta af mótinu er líklegt, sama hvaða ákvörðun enska knattspyrnusambandið tekur,  að gert yrði á hlut einhvers félags sem gæti þá mögulega leitað réttar síns fyrir dómstólum.

mbl.is