Roy Keane hellti sér yfir Gylfa

David de Gea biðlar til dómarans um að dæma á …
David de Gea biðlar til dómarans um að dæma á Gylfa Þór Sigurðsson á Goodison Park í dag. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson var í sviðsljósinu þegar Everton gerði 1:1-jafntefli við Manchester United á Goodison Park í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Hann brenndi af dauðafæri undir lok leiksins og svo dæmdur rangstæður þegar Dominic Calvert-Lewin setti boltann í netið úr frákastinu.

Roy Keane, gamla United-kempan, var í sviðsveri Sky Sports sem sýndi frá leiknum og hann var ekki ánægður með íslenska landsliðsmanninn. „Ég myndi vera pirraður út í Sigurðsson fyrir að koma sér ekki í burtu,“ sagði Keane.

„Getið þið sagt mér eftir hverju hann er að bíða?“ bætti Keane við en Gylfi lá eftir í grasinu stuttu eftir að hafa klúðrað færinu og töldu dómarar leiksins að hann hefði haft áhrif á David de Gea í marki United.

„Þú verður að koma þér í burtu, það er bara almenn skynsemi. Ég skil að Everton-menn séu svekktir en þetta var rétt ákvörðun,“ sagði Keane og var sammála dómurum leiksins um að leyfa markinu ekki að standa.

Roy Keane kallar ekki allt ömmu sína.
Roy Keane kallar ekki allt ömmu sína. AFP
mbl.is