Klopp horfir til Þýskalands

Jürgen Klopp vill styrkja leikmannahóp sinn umtalsvert fyrir næstu leiktíð.
Jürgen Klopp vill styrkja leikmannahóp sinn umtalsvert fyrir næstu leiktíð. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, ætlar sér að styrkja leikmannahóp sinn í sumar þrátt fyrir að félagið sé með 25 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þegar níu umferðir eru eftir af tímabilinu. Liverpool, sem er ríkjandi Evrópumeistari, er úr leik í Meistaradeildinni eftir tap gegn Atlético Madrid í sextán liða úrslitu keppninnar.

Enskir fjölmiðlar greina frá því að Klopp horfi mikið til þýsku deildarinnar þegar kemur að því að bæta við nýjum leikmönnum í sumar. Timo Werner, sóknarmaður RB Leipzig, hefur verið sterklega orðaður við Liverpool undanfarnar vikur. Þá eru Leon Bailey, kantmaður Bayer Leverkusen, og Denis Zakaria, miðjumaður Borussia Mönchengladbach, einnig á óskalista Klopp.

Kai Havertz, miðjumaður Bayer Leverkusen, og Jadon Sancho, sóknarmaður Borussia Dortmund, hafa einnig verið orðaðir við félagið að undanförnu. Allir þessir leikmenn eru ungir að árum og eiga framtíðina fyrir sér en Klopp vill auka breiddina hjá sér til muna fyrir næstu leiktíð þar sem Liverpool stefnir á fleiri titla á komandi árum.

mbl.is