Enska fótboltanum frestað til aprílloka

Ekkert verður leikið í ensku knattspyrnunni í aprílmánuði.
Ekkert verður leikið í ensku knattspyrnunni í aprílmánuði. AFP

Öllum leikjum í ensku knattspyrnunni hefur verið frestað til 30. apríl hið minnsta en það var tilkynnt eftir fundahöld hjá knattspyrnusambandinu og efstu deildunum í dag.

Áður hafði leikjum verið frestað til 4. apríl en vegna ástandsins í landinu vegna kórónuveirunnar hefur sú frestun nú verið framlengd.

Þá samþykkti enska knattspyrnusambandið að núverandi tímabil gæti verið framlengt eins lengi og þurfa þykir, fram yfir upprunalega dagsetningu sem var 1. júní.

Í sameiginlegri yfirlýsingu frá knattspyrnusambandinu, úrvalsdeildinni og ensku deildakeppninni segir að „stefnt se einhuga að því að finna leiðir til að halda áfram með keppnistímabilið 2019-20 og ljúka öllum leikjum í deildakeppni og Evrópukeppni um leið og það er hægt."

mbl.is