Úrvalsdeildarleikmenn keppa á morgun

Andros Townsend er einn þeirra sem keppir á morgun.
Andros Townsend er einn þeirra sem keppir á morgun. AFP

Ekkert er spilað í ensku knattspyrnudeildunum þessa dagana vegna útbreiðslu kórónuveirunnar en öllum leikjum hefur verið frestað þar til í lok apríl. Hins vegar munu nokkrir leikmenn úr deildunum, þar á meðal úrvalsdeildinni, keppa fyrir hönd sinna liða á morgun með nokkuð breyttu sniði.

Andros Townsend, Neal Maupay og Todd Cantwell munu spila fyrir sín lið, Crystal Palace, Brighton og Norwich, og þá eru nokkrir leikmenn úr ensku neðri deildunum sem einnig taka þátt en keppt er í fótboltatölvuleik.

Félagið Leyton Orient, sem spilar í D-deildinni, ákvað að bjóða knattspyrnufélögum um allan heim að taka þátt í keppni í tölvuleiknum Fifa 20 og munu alls 128 félög um alla Evrópu mæta til leiks. Þeirra á meðal eru Englandsmeistarar Manchester City, West Ham, Aston Villa og þó nokkur félög utan Englands, eins og Marseille frá Frakklandi, Ajax frá Hollandi og Benfica frá Portúgal. Tilgangurinn með mótinu er að safna fé til góðgerðarmála.

Alvöruknattspyrnumenn keppa fyrir hönd nokkurra liða á meðan önnur eru með sérstakar rafíþróttadeildir innan sinna raða. Englandsmeistarar City þykja sigurstranglegastir enda eitt þeirra liða sem eru með atvinnumenn í tölvuleiknum sjálfum á mála hjá sér.

Þeir sem vilja fylgjast með mótinu geta heimsótt heimasíðu Leyton Orient hér.

mbl.is