Vill að United kaupi fyrirliða Villa

Jack Grealish hefur spilað vel á leiktíðinni.
Jack Grealish hefur spilað vel á leiktíðinni. AFP

Rio Ferdinand, fyrrverandi varnarmaður Manchester United, svaraði spurningum aðdáenda á Instagram í dag. Var Ferdinand spurður hvor hann væri frekar til í að sjá James Maddison, leikmann Leicester, eða Jack Grealish, fyrirliða Aston Villa, í herbúðum United á næstu leiktíð. 

Hafa þeir báðir spilað vel með liðum sínum á leiktíðinni og eru auk þess ungir og spennandi leikmenn, nokkuð sem Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri United, leitar að í leikmannakaupum. 

„Grealish eða Maddison? Góð spurning. Þeir eru báðir búnir að vera mjög góðir. Maddison skorar, leggur upp og skapar færi. Hann er skarpur leikmaður. Grealish getur það allt sömuleiðis en hann er betri í að taka menn á. Það er svo hroki í Grealish, sem er gott. Ég myndi frekar taka Grealish,“ sagði Ferdinand.

mbl.is