Úrvalsdeildin gæti byrjað áður en faraldrinum lýkur

Úr leik Southampton og Burnley.
Úr leik Southampton og Burnley. AFP

Enska úrvalsdeildin í knattspyrnu gæti hafist á nýjan leik áður en kórónuveirufaraldurinn er á enda. Fólk gæti þá horft á leikina heima hjá sér á meðan það er í sóttkví eða einangrun.

Þetta segir Martin Semmens, framkvæmdastjóri Southampton, en hann var í viðtali við BBC. „Þegar allir eru orðnir öruggir og við erum ekki að reyna á þolmörk heilbrigðiskerfisins munu yfirvöld vilja fá okkur til að byrja að spila aftur. Við búum til skemmtun og það væri merki um að venjulegt ástand væri að komast á aftur,“ sagði Semmens, sem bætti þó við að þetta yrði að gera á réttum tíma.

„Við þurfum að gera það sem er rétt og öruggt fyrir fólkið í landinu. Ef fólk verður heima í mánuð í viðbót en úrvalsdeildin getur verið í sjónvarpinu á hverjum degi, það væri bara jákvætt.“

Búið er að fresta öllum fótbolta á Englandi til 30. apríl hið minnsta.

mbl.is