West Ham með heimavöllinn á hreinu í sumar

West Ham leikur á London Stadium og þarf ekki að …
West Ham leikur á London Stadium og þarf ekki að leita annað í sumar. AFP

West Ham getur leikið heimaleiki sína á London Stadium í sumar ef til þess kemur að keppni í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu fari fram yfir sumarmánuðina.

Blikur voru á lofti fyrir West Ham, sem hefur haft London Stadium, Ólympíuleikvang borgarinnar frá 2012, sem heimavöll frá því í ágúst 2016 þegar félagið flutti þangað frá Upton Park. Keppni í hafnabolta og frjálsíþróttum var á dagskrá leikvangsins í sumar, ásamt tónleikum, en þetta hefði allt kallað á að áhorfendastæðum væri breytt tímabundið ásamt sjálfum vellinum.

Talsmaður West Ham sagði við Sky Sports að staðfest hefði verið að í samningi félagsins við vallaryfirvöld væri ákvæði sem tryggði West Ham forgangsrétt til notkunar á leikvanginum, á þann hátt að niðurröðun leikja félagsins réði notkun hans.

„Við höfum engar staðfestingar á því hvenær frestuðu leikirnir verða spilaðir, en ef og þegar að því verður munu þeir fara fram á London Stadium sem er heimavöllur West Ham United," sagði talsmaðurinn.

mbl.is