Miður sín yfir útspili Liverpool

Jürgen Klopp og Pep Guardiola eru á meðal bestu knattspyrnustjóra …
Jürgen Klopp og Pep Guardiola eru á meðal bestu knattspyrnustjóra ensku úrvalsdeildarinnar. AFP

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester City eru ekki par sáttir með topplið ensku úrvalsdeildarinnar Liverpool þessa dagana en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Fyrr í vetur var Manchester City úrskurðað í tveggja ára keppnisbann í Meistaradeild Evrópu af UEFA fyrir brot á fjármálareglum FIFA, FFP.

City áfrýjaði úrskurðinum til Alþjóða íþróttadómstólsins, CSA, en vegna kórónuveirufaraldsins sem nú herjar á heimsbyggðina er óvíst hvort Alþjóða íþróttadómstóllinn nái að taka málið fyrir áður en Meistaradeildin hefst á nýjan leik á næstu leiktíð. Það myndi því þýða að City er gjaldgengt í Meistaradeildina á næsta tímabili ef ekki tekst að klára málið fyrir tilsettan tíma.

Af tíu efstu liðum ensku úrvalsdeildarinnar hafa átta þeirra sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu til Alþjóða íþróttadómstólsins þar sem farið er fram á það að bann City standi á næstu leiktíð, sama þó að málið hafi ekki verið tekið fyrir hjá dómstólnum. City-menn eru hins vegar svekktir með Liverpool þar sem staða þeirra í deildinni hefur engin áhrif á sæti þeirra í Meistaradeildinni.

Öll liðin í efri hlutanum kvittuðu undir yfirlýsinguna, nema Sheffield United, en fari svo að City bann City standi mun liðið í fimmta sætinu fara í Meistaradeildina á kostnað City og liðið í sjötta sætinu fær þá sæti í Evrópudeildinni. Það er hins vegar almenn óánægja með kauphegðun City, undanfarin ár, á Englandi og er það ein af ástæðum þess að Liverpool ákvað að setja nafn sitt á yfirlýsinguna.

mbl.is