Þýddu viðtalið ekki rétt

Pedro fagnar marki fyrir Chelsea.
Pedro fagnar marki fyrir Chelsea. AFP

Spænski knattspyrnumaðurinn Pedro segir að ummæli sín við spænska útvarpsstöð á dögunum hafi verið misskilin af enskum fjölmiðlum en þar kom fram í kjölfar viðtalsins að Pedro hefði ákveðið að yfirgefa enska félagið Chelsea í sumar þegar samningur hans rennur út.

„Eins og margir vita er samningurinn minn að renna út í sumar. En ég hef ekki rætt enn við félagið um mögulega framlengingu. Eftir viðtalið við mig á spænskri útvarpsstöð fékk ég fullt af skilaboðum frá stuðningsfólki Chelsea sem kvöddu mig og þökkuðu fyrir það sem ég hefði gert á undanförnum árum. Ég met það en vil að þau viti að ég er enn ekki farinn að ræða við félagið um framtíð mína," sagði Pedro á vef Chelsea.

Hann kveðst ekki hafa fengið neinar vísbendingar um hvað forráðamenn Chelsea ætli sér. „Ég veit því ekki hvort ég verði hér áfram eða ekki. En ég hef ekki samið við neitt annað félag, ég tilheyri Chelsea. Fyrsta ósk mín er að vera hér áfram en við sjáum til hvað gerist," sagði Pedro sem hefur leikið 201 leik fyrir Lundúnaliðið og skorað 43 mörk frá því hann kom frá Barcelona árið 2015.

Í vetur hafa meiðsli sett strik í reikninginn og spænski framherjinn hefur aðeins komið við sögu í níu úrvalsdeildarleikjum og átján leikjum alls. Fregnir hafa verið um áhuga spænskra og ítalskra félaga á þessum 32 ára gamla leikmanni sem á 65 landsleiki að baki fyrir Spán.

mbl.is