Fyrrverandi leikmaður United vill ekki klára tímabilið

Rio Ferdinand.
Rio Ferdinand. AFP

Rio Fer­d­inand, fyrr­ver­andi fyr­irliði enska knatt­spyrnu­fé­lags­ins Manchester United, vill að horfið verði frá tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni vegna kórónuveirufaraldursins.

Öllum fótbolta á Englandi hefur verið aflýst til 30. apríl hið minnsta vegna útbreiðslu veirunnar og ríkir mikil óvissa um framhaldið. Margir vilja að tímabilið verði klárað að faraldrinum loknum en Ferdinand segir fótboltann ómerkilegan í stóra samhenginu.

„Fótbolti er bara leikur, eins alvarlega og við tökum honum, þá er þetta bara leikur á endanum. Við þurum að skoða stærra samhengið og átta okkur á hvað er að gerast í samfélaginu,“ sagði Ferdinand á BT Sport.

„Ef það verður ekki hægt að halda áfram að spila á allra næstu viku þá þarf fleygja tímabilinu og byrja upp á nýtt næsta vetur,“ bætti fyrrverandi enski landsliðsmaðurinn við og segist búast við því að þessi ummæli falli ekki í kram margra Liverpool-manna.

„Margir stuðningsmenn Liverpool halda eflaust að ég sé að segja þetta af því að ég vil ekki að þeir vinni deildina,“ sagði Ferdinand en Liverpool er með gríðarlega stórt forskot á toppi úrvalsdeildarinnar og aðeins tveimur sigurleikjum frá Englandsmeistaratitlinum.

„En ef mitt lið væri í þessari stöðu þá myndi ég fyrst og fremst hugsa um heilsu fólks og samfélagið í heild, frekar en um leikinn. Sumir verða ánægðari en aðrir ef við slaufum tímabilinu, það geta ekki allir unnið í þessari stöðu og það er staðreynd.“

mbl.is