Trent veitir okkur öllum innblástur

Trent Alexander-Arnold er einn besti hægri bakvörður heims.
Trent Alexander-Arnold er einn besti hægri bakvörður heims. AFP

Neco Williams, leikmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, segir Trent Alexander-Arnold veita öllum ungum leikmönnum liðsins innblástur. Trent er uppalinn hjá félaginu og er hann orðinn einn besti bakvörður heims. Hann lék sinn fyrsta leik með aðalliðinu árið 2016. 

Williams er 18 ára og hefur af og til fengið að spreyta sig með aðalliðinu, fyrst og fremst í bikarkeppnum. „Hann hefur sýnt það að allt sé hægt ef þú ert tilbúinn að leggja mikið á þig,“ sagði Williams í samtali á heimasíðu Liverpool. 

„Það er ekki langt síðan Trent var að spila með unglingaliðinu og núna er hann að spila ótrúlega vel og orðinn einn besti bakvörður heims. Ég fylgist mikið með honum og reyni að læra. Hann veitir öllum ungum leikmönnum Liverpool innblástur,“ bætti Williams við. 

mbl.is