Reynir Everton að kaupa Bale og Ramsey?

Gareth Bale á æfingu hjá Real Madrid.
Gareth Bale á æfingu hjá Real Madrid. AFP

Stjórnarmenn Everton eru sagðir vilja freista þess að fá velsku knattspyrnumennina Gareth Bale og Aaron Ramsey í sínar raðir í sumar en þeir eru sem kunnugt er leikmenn Real Madrid og Juventus.

Þetta kveðst netmiðillinn 90min.com hafa eftir áreiðanlegum heimildum en báðir leikmennirnir eru taldir líklegir til að yfirgefa sín félög í sumar.

Vandræðagangur Real Madrid varðandi Gareth Bale hefur staðið yfir lengi og félagið er sagt tilbúið til að láta hann frá sér án greiðslu í sumar til að losna við launapakkann því Bale fær 350 þúsund pund á viku hjá félaginu.

Ramsey kom til Juventus frá Arsenal síðasta sumar en hefur átt erfitt uppdráttar og  aðeins verið níu sinnum í byrjunarliðinu í ítölsku A-deildinni í vetur. Hann er sagður hafa lítinn áhuga á að eyða öðru tímabili á varamannabekknum og Juventus sé tilbúið til að láta hann fara ef gott tilboð færist.

mbl.is