Vilja klára enska keppnistímabilið í Kína

Liverpool er með 25 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar …
Liverpool er með 25 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þegar níu umferðir eru eftir af tímabilinu. AFP

Forráðamenn liða í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu munu funda síðar í dag um framhald deildarinnar. Í mars var deildinni frestað til 4. apríl en í síðustu viku var ákveðið að deildin myndi ekki hefjast á nýjan leik fyrr en í fyrsta lagi um mánaðamótin apríl/maí. Enskir fjölmiðlar greina frá því að mótinu verði hins vegar frestað enn frekar á fundinum í dag.

Um tíma var mikil umræða um það á Englandi að tímabilið yrði blásið af en ef það yrði gert myndu félögin missa af afar dýrmætum sjónvarpstekjum. Þessar sjónvarpstekjur setja ákveðna pressu á félögin í dag um að klára keppnistímabilið því á meðan deildin liggur niðri eru tekjur félaganna litlar sem engar.

Því hafa margir í knattspyrnuheiminum á Englandi þurft að taka á sig launalækkun að undanförnu. The Athletic greinir frá því að mikill vilji sé nú hjá félögunum að klára tímabilið en UEFA greindi einnig frá því í dag að lið úr þeim deildarkeppnum sem verða blásnar af á næstu dögum fengju ekki sæti í Evrópukeppnum á næstu leiktíð.

The Athletic greinir frá því í dag að eitt félag í ensku úrvalsdeildinni muni leggja fram tillögu um að tímabilið verði klárað í Kína. Þar hefur kórónuveiran að mestu runnið sitt skeið og lífið er farið að hafa sinn vanagang þar í landi. Þetta myndi einnig minnka álag á heilbrigðisstarfsfólk á Englandi sem hefur í mörgu að snúast þessa dagana.

mbl.is