Áminna leikmennina um að halda réttri fjarlægð

José Mourinho reynir eins og aðrir knattspyrnustjórar að halda sínum …
José Mourinho reynir eins og aðrir knattspyrnustjórar að halda sínum mönnum við efnið þessa dagana. AFP

Enska knattspyrnufélagið Tottenham hefur áminnt leikmenn sína um að fara að reglum og halda tveggja metra fjarlægð eftir að myndskeið á samfélagsmiðlum sýndu nokkra þeirra fara á svig við reglurnar.

Þar mátti sjá knattspyrnustjórann José Mourinho með Tanguy Ndombele á æfingu á útivistarsvæðinu Hadley Common í útjaðri London og þá Davinson Sanchez og Ryan Sessegnon hlaupa hlið við hlið á sama stað. Serge Aurier birti sjálfur myndskeið af sjálfum sér hlaupa þétt við hlið annars manns.

„Allir okkar leikmenn hafa verið áminntir um að halda rétti fjarlægð á milli sín þegar þeir æfa utandyra. Við munum halda áfram að hamra á þessum skilaboðum,“ sagði talsmaður Tottenham við breska fjölmiðla í kvöld.

mbl.is