Verður ekki valinn aftur í landsliðið

Kyle Walker hefur að öllum líkindum spilað sinn síðasta landsleik.
Kyle Walker hefur að öllum líkindum spilað sinn síðasta landsleik. AFP

Kyle Walker, bakvörður Englandsmeistara Manchester City í knattspyrnu, verður ekki valinn aftur í enska landsliðið en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Walker kom sér á forsíður blaðanna í síðustu viku þegar hann, ásamt félögum sínum, fékk tvær fylgdarkonur heim til sín í partí í miðju samkomubanni.

Fyrr um daginn hafði Walker sett inn færslu á Twitter þar sem hann hvatti fólk til þess að fylgja tilmælum stjórnvalda, virða samkomubannið og fara varlega á þessum erfiðu tímum. Margir hafa gagnrýnt Walker harðlega síðan fréttir af málinu blossuðu upp en leikmaðurinn á von á 250.000 punda sekt frá City vegna hegðun sinnar.

Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins er sagður afar óhress með fréttirnar af Walker en hann hefur alla tíð litið svo á að landsliðsmenn Englands séu og eigi að vera fyrirmyndir í einu og öllu. Walker á að baki 48 landsleiki fyrir England frá árinu 2011 en nú greina enskir fjölmiðlar frá því að dagar hans með landsliðinu séu taldir.

mbl.is