Man. United framlengir við varnarmann

Timothy Fosu-Mensah í baráttu við Gareth Bale.
Timothy Fosu-Mensah í baráttu við Gareth Bale. AFP

Manchester United hefur nýtt sér ákvæði í samningi Timothy Fosu-Mensah og framlengt hann um eitt ár. Varnarmaðurinn verður því áfram á mála hjá United en hann hefur þó ekki spilað fyrir liðið í nokkur ár.

Hollendingurinn átti að verða samningslaus í sumar en verður nú áfram innan raða United í aðra 12 mánuði hið minnsta. Fosu-Mensah er 22 ára gamall og hefur ekki spilað fyrir aðallið United síðan 2017 en hefur síðan þá verið að láni hjá bæði Crystal Palace og Fulham.

Hann varð fyrir alvarlegum meiðslum á hné þegar hann var hjá Fulham og var frá vegna þeirra í heilt ár. Hann hefur nýlega byrjað að spila fyrir varaliðið á nýjan leik og virðist knattspyrnustjórinn Ole Gunnar Solskjær vilja halda honum.

Fosu-Mensah hefur spilað þrjá landsleiki fyrir Holland sem og öll yngri landsliðin en hann á að baki um 45 úrvalsdeildarleiki á Englandi. Hann gekk til liðs við Manchester-félagið árið 2015.

mbl.is