Var nálægt því að fara til Barcelona

Rio Ferdinand átti góð ár hjá Manchester United.
Rio Ferdinand átti góð ár hjá Manchester United. ANDREW YATES

Enski varnarmaðurinn Rio Ferdinand var nálægt því að ganga í raðir Barcelona þegar hann var upp á sitt besta hjá Manchester United. 

Ferdinand vann fjórtán titla á tólf árum hjá United og varð m.a. enskur meistari sex sinnum. Hann var hins vegar nálægt því að yfirgefa félagið árið 2008 þegar Frank Rijkaard, þáverandi stjóri Barcelona, hafði samband við hann. 

„Þetta var nálægt því að ganga í gegn. Það var rætt við mig og umboðsmanninn minn og ég ræddi við Rijkaard. Ég sagðist alltaf vilja spila erlendis, ef ég myndi ekki ná langt heima á Englandi. 

Sem betur fer var ég hjá Manchester United og það var nánast útilokað fyrir mig að fara. Við unnum Barcelona þetta ár og urðum Evrópumeistarar. Þá sá ég ekki ástæðu til að fara annað,“ sagði Ferdinand við BT-sjónvarpsstöðina. 

mbl.is