Everton í áfalli

Ítalinn Moise Kean braut reglur um samkomubann á dögunum.
Ítalinn Moise Kean braut reglur um samkomubann á dögunum. AFP

Moise Kean, framherji enska knattspyrnufélagsins Everton, er í vondum málum eftir að hann ákvað að halda partí í íbúð sinni í Cheshire á dögunum. Strangt útgöngu- og samkomubann ríkir á Bretlandi þessa dagana vegna kórónuveirunnar sem nú geisar en alls hafa 148.377 manns greinst með veiruna þar í landi og þar af eru 20.319 látnir af völdum hennar.

Kean er aðeins tvítugur en hann birti myndband úr partíinu í einkagrúppu samfélagsmiðlinum Snapchat. Enskir fjölmiðlar greina frá því að forráðamenn Everton séu brjálaðir út í leikmanninn og á hann von á hárri fjársekt frá félaginu. Kean gekk til liðs við Everton frá Juventus síðasta sumar fyrir 24 milljónir punda en hann hefur ekki staðið undir væntingum.

„Við hjá Everton erum í áfalli eftir að fréttir bárust af því að leikmaður félagsins hefði brotið reglur um útgöngu- og samkomubann,“ segir í yfirlýsingu sem Everton sendi frá sér. „Við höfum látið leikmanninn vita af óánægju okkar og komið þeim skilaboðum áleiðis að svona hegðun sé einfaldlega ekki í boði,“ segir í tilkynningu Everton.

mbl.is