Íslandsvinur rauk út í beinni útsendingu

Neil Ruddock brást illa við ábendingum Merson.
Neil Ruddock brást illa við ábendingum Merson. Ljósmynd/ITV

Fyrrverandi knattspyrnumanninum Neil Ruddock var ekki skemmt er hann mætti í sjónvarpsþáttinn Harry's Heroes á ITV-sjónvarpsstöðinni með Paul Merson.

Ruddock fékk sér bjór í þættinum og Merson benti á að Ruddock hefði enga stjórn á drykkjunni og væri að drepa sig með henni. Ruddock brást illa við og hótaði að lemja Merson, áður en hann rauk út. 

Merson hefur sjálfur talað opinskátt um eigin áfengis- og eiturlyfjaneyslu. Sagði hann eftir atvikið að hann ætlaði einungis að hjálpa góðum vini. Eftir að Ruddock róaðist sagði hann að orð Merson hefðu verið særandi. 

Ruddock kom til Íslands á vegum Liverpool-klúbbsins árið 2010, en hann lék með liðinu frá 1993 til 1998. Hefur hann vakið neikvæða athygli síðan hann lagði skóna á hilluna og var hann úrskurðaður gjaldþrota árið 2014. 

mbl.is