Allir tilbúnir að spila fyrir milljónir á viku

Danny Rose er einn þeirra leikmanna sem hefur lýst yfir …
Danny Rose er einn þeirra leikmanna sem hefur lýst yfir áhyggjum sínum yfir því að snúa aftur. AFP

Ónefndur yfirmaður knattspyrnufélags í ensku úrvalsdeildinni segir að þeir leikmenn sem neiti að spila þegar og ef deildin snýr aftur eigi ekki að fá greidd laun. Mikið hefur verið rætt og ritað um endurkomu ensku úrvalsdeildarinnar sem hefur verið hléi síðan 9. mars síðastliðinn vegna kórónuveirufaraldursins.

Forráðamenn liða í deildinni munu funda um endurkomu deildarinnar í dag en enskir fjölmiðlar hafa greint frá því að sjónvarpsstöðvar sem eru með sýningarréttinn að deildinni hafi fengið þau skilaboð að þau geti byrjað að undirbúa endurkomu deildarinnar í kringum 12. júní. Margir leikmenn deildarinnar hafa hins vegar lýst yfir áhyggjum sínum yfir því að þurfa að byrja spila.

„Ef að leikmenn neita hreinlega að spila þá eiga þeir ekki að fá greidd laun, svo einfalt er það,“ sagði ónefndur forráðamaður í samtali við Sky Sports. „Eins og staðan er núna vitum við hins vegar ekki hvort það stangist á við samninga þeirra. Ef þú myndir labba upp að einhverjum á götunni og biðja hann um að æfa og spila fótbolta, hvað heldurðu að hann myndi segja?

Hann myndi fá borguð 60.000 pund á viku fyrir að spila fótbolta, það myndu allir svara játandi og láta sig hafa það. Þessi yfirstéttarhyggja knattspyrnumanna gerir mig einstaklega pirraðan og reiðan,“ bætti forráðamaðurinn við en 60.000 pund samsvara tæplega 11 milljónum íslenskra króna.

mbl.is