Var skíthræddur við sir Alex

Nani og sir Alex Ferguson voru sigursælir hjá Manchester United.
Nani og sir Alex Ferguson voru sigursælir hjá Manchester United. AFP

Portúgalski knattspyrnumaðurinn Nani ræðir tímann sinn hjá Manchester United í hlaðvarpi félagsins. Nani lék í átta ár með United og skoraði 40 mörk og lagði upp 73 í 230 leikjum. Nani viðurkennir að hann hafi verið hræddur við knattspyrnustjórann sir Alex Ferguson fyrst um sinn. 

„Til að byrja með var ég skíthræddur við Ferguson. Hann var eins og faðir og ég var hræddur um að gera mistök. Ég var hræddur þangað til ég lærði að skilja hann og tjá mig. Enskan mín hefur aldrei verið fullkomin, en þegar ég kom fyrst til United var hún verri en núna. 

Þegar enskan mín varð betri gaf hann mér meiri athygli og ég lærði betur á hann. Þá varð sambandið okkar betra. Hann var nágranni minn og við fórum oft samferða á útileiki í London,“ sagði Nani og viðurkenndi að það hefði eitt sinn verið óþægilegt. 

„Við vorum að spila við Fulham og staðan var 2:2 þegar ég tók víti og klúðraði því. Eftir leik var hann brjálaður og hellti sér yfir mig og Giggs því Giggs átti að taka vítið. Ég keyrði hann heim af lestarstöðinni og hann sagði ekki orð á leiðinni. Það var mjög óþægilegt,“ sagði Nani. 

mbl.is