Mættir fyrstir á æfingasvæði Liverpool

Sadio Mané og Mohamed Salah eru mættir fyrstir á æfingasvæði …
Sadio Mané og Mohamed Salah eru mættir fyrstir á æfingasvæði Liverpool alla daga. AFP

Andy Lonergan, fjórði markvörður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, hefur hrósað liðsfélögum sínum í hástert en Lonergan er orðinn 36 ára gamall. Hann gekk til liðs við Liverpool frá B-deildarfélagi Middlesbrough síðasta sumar en hefur ekki enn þá spilað aðalliðsleik fyrir topplið ensku úrvalsdeildarinnar.

Lonergan ræddi málið við This Is Anfield, stuðningsmannasíðu Liverpool, á dögunum þar sem hann talaði meðal annars um þá leikmenn sem mæta alltaf fyrstir á æfingasvæði liðsins. „Það er alveg sama hvenær maður mætir á æfingu, James Milner, Adam Lallana, Sadio Mané og Mohamed Salah eru alltaf mættir í æfingasalinn fyrstir,“ sagði Lonergan.

„Fyrir mér eru þetta bestu knattspyrnumenn heims í dag. Þeir hætta aldrei og það er fullt af hlutum sem gerast á bak við tjöldin sem þessir leikmenn leggja á sig sem enginn sér. Fólk sér þá bara spila um helgar en ég get bara staðfest það að þeir eru alltaf að, allar klukkustundir sólarhringsins og þeir hætta aldrei.

Alla mína tíð hef ég leikið í B-deildinni þangað til síðasta sumar og þetta er besti hópur sem ég hef æft með, það gefur augaleið. Hér eru allir leikmenn í heimsklassa, allt frá markmanni til sóknarmannanna. Ég elska að fylgjast með Mané og Firmino á æfingum og í leikjum, þeir geta gert ótrúlegustu hluti,“ bætti markmaðurinn við.

mbl.is