United blandar sér í baráttuna

Kalidou Koulibaly hefur verið orðaður við Liverpool undanfarnar vikur.
Kalidou Koulibaly hefur verið orðaður við Liverpool undanfarnar vikur. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur blandað sér í baráttuna um senegalska miðvörðinn Kalidou Koulibaly en það er enska götublaðið Express sem greinir frá þessu. Koulibaly hefur verið sterklega orðaður við Liverpool undanfarnar vikur en hann er samningsbundinn ítalska A-deildarliðinu Napoli til sumarsins 2023.

Napoli er hins vegar sagt tilbúið að selja leikmanninn í sumar samkvæmt fjölmiðlum á Ítalíu en ítalska félagið hefur valdið vonbrigðum á leiktíðinni og er í sjötta sæti deildarinnar með 39 stig, 9 stigum frá Meistaradeildarsæti þegar tólf umferðir eru eftir af tímabilinu. Koulibaly verður 29 ára gamall í júní en hann kom til Napoli frá Genk í Belgíu árið 2014.

Miðvörðurinn sterki hefur verið reglulega orðaður við Liverpool að undanförnu en Jürgen Klopp er sagður vilja fá Senegalann til þess að spila við hlið Virgil van Dijk í hjarta varnarinnar. United hefur áður verið orðað við varnarmanninn sem á að baki 42 landsleiki fyrir Senegal en hann er verðmetinn á 56 milljónir evra í dag.

mbl.is