Enn einn Portúgalinn á leið til Wolves

Nuno Santo hefur stýrt liði Wolves á Englandi frá árinu …
Nuno Santo hefur stýrt liði Wolves á Englandi frá árinu 2017. AFP

Knattspyrnumaðurinn Joao Palhinha er að ganga til liðs við enska úrvalsdeildarfélagið Wolves en það er portúgalski miðillinn Correio da Manha sem greinir frá þessu. Palhinha er 24 ára gamall. Hann er samningsbundinn Sporting í Portúgal en leikur í dag sem lánsmaður hjá Braga í portúgölsku úrvalsdeildinni þar sem hann hefur slegið í gegn.

Correio da Manha greinir frá því að Wolves sé tilbúið að borga 15 milljónir evra fyrir leikmanninn en leikmaðurinn er með klásúlu í samningi sínum við Sporting sem gerir honum kleift að yfirgefa félagið fyrir 60 milljónir evra. Palhinha er samningsbundinn Sporting til ársins 2022 en hann er sagður spenntur fyrir því að reyna fyrir sér á Englandi.

Nuni Espiríto Santo hefur stýrt liði Wolves frá árinu 2017 og náð mjög góðum árangri með liðið en Santo er 46 ára gamall Portúgali. Í dag eru átta Portúgalar samningsbundnir enska félaginu en liðið er sem stendur í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 43 stig þegar níu umferðir eru eftir af tímabilinu, fimm stigum frá meistaradeildarsæti.

mbl.is