Burnley framlengdi við kantmann

Robbie Brady í leik með Burnley gegn Chelsea.
Robbie Brady í leik með Burnley gegn Chelsea. AFP

Enska knattspyrnufélagið Burnley, sem Jóhann Berg Guðmundsson leikur með, hefur framlengt samning sinn við írska landsliðsmanninn Robbie Brady.

Burnley nýtti sér ákvæði til framlengingar í samningi sínum við kantmanninn sem er 28 ára gamall og var dýrasti leikmaður félagsins þegar það keypti hann af Norwich fyrir 13 milljónir punda í ársbyrjun 2017. Hann hefur leikið 63 leiki fyrir Burnley í öllum mótum en misst nokkuð úr vegna meiðsla.

Burnley er í tíunda sæti úrvalsdeildarinnar með 39 stig þegar níu umferðum er ólokið af tímabilinu. Á þessu tímabili hefur Brady leikið 14 af 29 leikjum liðsins í deildinni og skorað eitt mark. Hann á að baki 46 landsleiki fyrir Írland og var í röðum Manchester United frá 2008 til 2013 og náði að spila einn leik með liðinu í deildabikarnum. Síðan lék hann með Hull og Norwich.

mbl.is