Dortmund heillar meira en United

Jadon Sancho hefur verið sterklega orðaður við Manchester United undanfarna …
Jadon Sancho hefur verið sterklega orðaður við Manchester United undanfarna mánuði. AFP

Emre Can, miðjumaður þýska knattspyrnufélagsins Borussia Dortmund, sér ekki af hverju Jadon Sancho, sóknarmaður Dortmund, ætti að yfirgefa Dortmund til þess að ganga til liðs við Manchester United á Englandi. Sancho er á meðal eftirsóttustu leikmanna heims í dag en hann er verðmetinn á 100 milljónir punda.

Kantmaðurinn, sem er tvítugur, hefur slegið í gegn í Þýskalandi og stimplað sig inn sem einn af betri liðsmönnum deildarinnar. Hann hefur verið sterklega orðaður við United undanfarnar vikur en hann er uppalinn hjá Manchester City. „Ég sé ekki af hverju einhver ætti að velja Manchester United fram yfir Dortmund,“ sagði Can í samtali við þýska miðilinn Bild.

„Íþróttalega séð þá er hann á betri stað og það er fátt heillandi við United þessa dagana. Mín ráðlegging til hans er að halda kyrru fyrir í Þýskalandi og þá getum við mögulega spilað saman til eilífðar,“ bætti Can við sem lék með Liverpool á Englandi frá 2014 til 2018 og þekkir því ágætlega til á Englandi.

mbl.is