Fær ekki að ljúka tímabilinu í úrvalsdeildinni

Jordon Ibe, til hægri, í baráttu við Seamus Coleman í …
Jordon Ibe, til hægri, í baráttu við Seamus Coleman í leik Bournemouth og Everton. AFP

Enski kantmaðurinn Jordon Ibe fær ekki að ljúka keppnistímabilinu í ensku úrvalsdeildinni með Bournemouth.

Félagið hefur ákveðið að framlengja ekki samning hans, sem rennur út 30. júní, en þá mun liðið væntanlega enn eiga eftir fimm til sex leiki í deildinni.

Ibe hefur enn fremur komið sér í vandræði hjá Bournemouth en hann braut reglur um fjarlægðarmörk með því að fara í klippingu á meðan slík starfsemi var bönnuð, og birti myndir af sér á samfélagsmiðlum í kjölfarið.

Ibe var einn af efnilegustu leikmönnum Liverpool á sínum tíma en Bournemouth keypti hann þaðan fyrir 16 milljónir punda fyrir fjórum árum. Honum hefur ekki tekist að fylgja eftir góðri byrjun, hefur aðeins náð að spila 44 leiki og skora 3 mörk á þessum fjórum árum.

Sex aðrir leikmenn Bournemouth eru með samninga sem renna út 30. júní, Ryan Fraser, Charlie Daniels, Andrew Surman, Simon Francis, Artur Boruc og Brad Smith. Félögin í deildinni hafa leyfi til að framlengja samninga leikmanna um einn mánuð til að ljúka  tímabilinu en leikmennirnir eru hins vegar ekki skyldugir til að vera hjá félögunum lengur en samningstíminn segir til um. Alls eru um fimmtíu leikmenn í úrvalsdeildinni enn með lausa samninga frá og með 30. júní.

mbl.is