Dyrnar hjá City opnar fyrir Kompany

Vincent Kompany.
Vincent Kompany. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir dyr félagsins ávallt opnar fyrir Vincent Kompany sem átti afar farsælan feril hjá Manchester-félaginu.

Kompany yfirgaf City á síðasta ári eftir 11 ára veru hjá félaginu þar sem hann varð meðal annars enskur meistari fjórum sinnum og fyrirliði í mörg ár. Hann sneri aftur til heimalandsins Belgíu og gerðist spilandi þjálfari Anderlecht. Deildinni þar var aflýst endanlega vegna kórónuveirunnar og hafa fjölmiðlar velt því fyrir sér hvort Kompany snúi aftur til City sem aðstoðarmaður Guardiola.

Engar formlegar viðræður hafa átt sér stað en Guardiola sagði Sky Sports að dyrnar væru alltaf opnar manninum sem vann deildina fjórum sinnum, deildabikarinn fjórum sinnum og enska bikarinn tvisvar með félaginu. Mikel Arteta var aðstoðarþjálfari hjá City áður en hann tók við stjórnartaumnum hjá Arsenal um áramótin.

mbl.is