Meistaraefnin minntust George Floyd

Leikmenn Liverpool krjúpa á hné á æfingu liðsins í dag.
Leikmenn Liverpool krjúpa á hné á æfingu liðsins í dag. Ljósmynd/@JamesMilner

Leikmenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool minntust Bandaríkjamannsins George Floyd á æfingu sinni í dag en Floyd lést í síðustu viku. Floyd var dökkur á hörund en hann var drepinn af hvítum lögreglumanni með því að krjúpa á hálsi hans og þrengja þannig að öndunarvegi hans þangað til hann kafnaði.

At­vikið náðist á mynd­band og hafa hörð og blóðug mót­mæli átt sér stað í Banda­ríkj­unum und­an­farna daga, bæði í Minneapolis þar sem atvikið átti sér stað sem og annars staðar. Mótmælin snú­ast fyrst og fremst um lög­reglu­of­beldi í garð þeirra sem eru dökk­ir á hör­und í land­inu og eru margir búnir að fá sig fullsadda af þeirri kúgun sem átt hefur sér stað í landinu undanfarna áratugi.

Leikmenn Liverpool heiðruðu minningu Floyd með því að krjúpa á hné eða „taka hné" eins og það er kallað. Það voru leikmenn NFL-deildarinnar sem voru fyrstir til að taka hné en Colin Kaepernick, fyrrverandi leikstjórnandi San Francisco 49ers, ákvað að gera það fyrstur allra árið 2016 þegar þjóðsöngur Bandaríkjanna var spilaður fyrir leiki 49ers á undirbúningstímabilinu það ár.

Kapernick ákvað að gera þetta til þess að vekja athygli á málefnum hörundsdökkra í landinu og mótmæla þeirri kúgun og því ofbeldi sem fólk af öðrum kynþætti en þeim hvíta hefur mátt þola í gegnum árin. „Sameinuð erum við sterkari,“ skrifaði James Milner, varafyrirliði Liverpool, á Twitter með myllumerkinu #BlackLivesMatter.

mbl.is