Segja Renaultvélina betri en Mercedes

Remi Taffin yfirmaður vélarmála hjá Renaultliðinu.
Remi Taffin yfirmaður vélarmála hjá Renaultliðinu.

Yfirmaður vélarmála í Renaultliðinu, Remi Taffin, staðhæfir að keppnisvél liðsins sé afl- og afkastameiri en keppnisvél Mercedes.

Árið 2014 komu vélar með forþjöppu í keppnisbíla formúlunnar og hafði Mercedes framan af því  skeiði mikla yfirburði á önnur lið. Þau hafa hins vegar  smám saman dregið á silfurörvarnar og eru flestir á því að Ferrarivélin hafi verið öflugri síðustu tvö keppnistímabilin.

Renault átti á fyrstu árunum í basli með að laga sig að nýju vélarreglunum en hefur sótt hratt á síðustu árin. Taffin trúir því að franska vélin standi nú framar bæði vélum Mercedes og Honda en vanti nokkuð á að ná Ferrarivélinni.

„Við sjáum fyrir okkur ramman slag við Mercedes og Ferrari hvað afkastagetu vélanna varðar,“ sagði hann við þýska bílaritið Auto Motor und Sport. „Mercedesvélin er ögn á eftir okkar en Ferrari aðeins kröftugri. Honda er svo einu skrefi á eftir. Við erum ekki lengur að tala um 50 kílóvatta mun. Milli Ferrari, Mercedes og okkar erum við að ræða um 5 til 10 kílóvött. Og Honda gæti verið 15 til 20 kw á eftir.“

Franski bílsmiðurinn leggur tveimur keppnisliðum til bílvélar, sínu eigin og McLaren. Í fyrra skipti Red Bull um vélar og samdi við Honda. Og það mun sjá á eftir McLaren við lok 2020 keppnistíðarinnar.

Taffin lætur sig þetta litlu varða og segir það ekki eins gagnlegt og ýmsir haldi, að selja liðum vélar. „Gagnsemi þess er fyrst og fremst meiri gögn og reynsla á endingu vélanna. Með fjórum bílum eru fjórum sinnum meiri líkur á að átta sig á vandamálum. En við græðum ekkert á því í vélarþróuninni. Við smíðum vél til að passa í bílinn okkar. Það er útilokað að framleiða tvær ólíkar vélar í einu þar sem það kallaði á tvær þróunarsveitir er störfuðu hlið við hlið.“

mbl.is